Þrjár SciFi kvikmyndir til að sjá 2016 – og tvær til að sleppa

Kvikmyndaárið 2016 er svo sem ekki stappfullt af SciFi og fantasíumyndum en það eru samt nokkrar ræmur sem gera það þess virði að eyða peningum í popp og kók (sorry Sambíó, popp og pepsi mun bara aldrei fljúga). Hér eru þrjár stórar sem munu gera lífið skemmtilegra á árinu:

Independence Day: Resurgence (júní)

Þær eru komnar aftur. Við vissum að þær kæmu aftur. Will Smith er hins vegar ekki kominn aftur. En Jeff Goldblum er kominn aftur og það er það sem máli skiptir. Það verða sprengingar, það verða geimverur, það verður ofgnótt af rembu, það verður fullt af Jeff Goldblum að vara við hlutum og það verður Bill Pullman. Hættið bara strax að blekkja ykkur. Þið munuð fara á þessa mynd og þið munuð elska hana. Eina spurningin um þessa mynd er í raun þessi: Getur Bill Pullman í Independence Day:Resurgence toppað Bill Pullman í Independence Day? Svarið fæst í júní.

Passengers (desember)

Hvað gerist þegar þú setur Chris Pratt og Jennifer Lawrence með fimmþúsund öðrum í geimskip á rúmlega hundrað ára ferð til annars sólkerfis? Chris Pratt vaknar auðvitað 90 árum of snemma. En ekki hvað? Þetta er jú Chris Pratt. Og hann verður einmana. Og vekur Jennifer Lawrence. Sleepless in Seattle in space? Mögulega. Allt buzzið í kring um þessa mynd virðist vera til þess fallið að hún verði ein af þeim allra stærstu á árinu. Leikaravalið mun líka draga að og mögulega auka áhuga kvikmyndaveranna á vísindaskáldsögum á næstu árum, sem er gott fyrir okkur. Ef við þurfum að horfa á Chris Pratt horfa ástúðlega í augun á JLaw til þess? It’s all good. Þetta lítur a.m.k. út fyrir að vera ferskt take á klassíska „vaknaði of snemma úr ofursvefninum“ söguþræðinum.passengers-casting-20161

Rougue One – A Star Wars Story (desember)

„Many Bothans died to bring us this information.“ Flestir SciFi kvimyndanördar vita hvaða upplýsingar er verið að tala um. Þeir, og þeir sem ekki átta sig á því að Mon Mothma var að tala um teikningarnar að Helstirninu í Star Wars: A New Hope geta nú brugðið sér í bíó og horft á það hvað þurfti til að stela þessum teikningum. Já, og Alan Tudyk er í henni. Svona aukasögur í heilum kvikmyndum eru það sem er mest spennandi við yfirtöku Disney á Star Wars, að minnsta kosti á meðan þeir gera þær almennilega. Var ég búinn að minnast á að Alan Tudyk er í henni? En það er auðvitað óþarfi að tala meira um þessa mynd. Horfið bara á treilerinn, ef þið hafið ekki þegar séð hann fimmtán sinnum (sextán er happatala), og dáist að því hvernig tekist hefur að endurskapa lúkkið úr A New Hope. Takið sérstaklega eftir Mon Mothma.

Já, og svo eru það:

Myndir sem er óþarfi að eyða tíma í ef maður getur frekar horft á brauð mygla:

Batman v.s Superman (mars)

Tvær ástæður fyrir því að sjá ekki þessa mynd:

  1. Zack Snyder.
  2. Í hvaða veröld er Batman vs. Superman kvikmynd lengri en 16 sekúndur? Really?

 

Teenage Mutant Ninja Turtles: Out of the Shadows (júní)

Miðað við hversu stórkostlega skelfileg síðasta TMNT mynd var er hreinlega furðuleg ákvörðun að gera aðra. Og Michael Bay leikstýrir. Í alvöru. Hann reynir að nota sama trikk og í Transformers myndunum (sem heimsbyggðin er enn að reyna að bæla niður minninguna um) og treður Megan Fox þarna inn. Hún virðist jafn vond og áður – eða minnist þess einhver að hafa séð góða bíómynd með Megan Fox? OK, við skulum gefa Bad Boys II séns, hún var góð, en það var ekki vegna þess að Megan Fox lék Stars-and-Stripes Bikini Kid Dancing Under Waterfall (uncredited) af innlifun. Ekki fara á þessa mynd. Ekki gera það. Ekki.