The Expanse – Space noir upp á sitt besta?

Expanse bókaserían eftir James S.A. Corey hefur heillað marga aðdáendur geimópera á undanförnum árum, allt frá undirrituðum til sjálfs George R.R. Martin (sem virðist lesa SciFi á milli þess sem hann slátrar eigin sögupersónum af áfergju) sem lét hafa eftir sér að fyrsta bókin, Leviathan Wakes, væri „kickass space opera“. Áhuga Martin þarf reyndar hugsanlega að skoða í því ljósi að annar helmingur höfundateymisins á bak við Expanse sögurnar er aðstoðarmaður Martins, Ty Franck. Umsögnin stendur hins vegar fyllilega fyrir sínu, enda hlaut fyrsta bókin verðskuldaða tilnefningu til Hugo verðlaunanna fyrir bestu vísindaskáldsöguna 2012.

Frá því þeir Franck og Daniel Abraham gáfu út Leviathan Wakes eru skáldsögurnar í Expanse flokknum orðnar fimm talsins og von er á þeirri sjöttu, Babylon’s Ashes, í byrjun nóvember 2016. Auk þess teljast til flokksins þrjár nóvellur og tvær smásögur sem allar fylgja eftir persónum og atburðum í Expanse heiminum.

Syfy tók seríuna svo upp fyrir sjónvarp og fyrsta þáttaröðin var sýnd haustið 2015 og sú næsta er á dagskrá í upphafi árs 2017. Eins og gera má ráð fyrir er nokkur munur á bókunum og þáttunum, bæði hvað varðar framsetningu og söguþráð. Þættirnir þykja samt fylgja söguþræði fyrstu bókarinnar nokkuð vel enn sem komið er, þó að sögupersónum seinni bóka sé blandað inn fyrr og að strangtrúaðir sjái margt sem þeim finnst jafnvel breyta eðli og samspili sögupersónanna frá því sem er í bókunum. Þættirnir þykja vera mjög vel gerðir, jafnvel með því betra sem komið hefur fram í scifi sjónvarpi síðustu ár hvað varðar handrit, umgjörð og framsetningu. Það er því sannarlega óhætt að mæla með þáttunum, en þó skal bent á að skynsamlegt er að lesa bækurnar fyrst.

Sögurnar fjalla í grunninn um fimm ólíka einstaklinga sem fyrir röð tilviljana og ákvarðana lenda saman í svaðilförum í sólkerfinu. Hljómar ekki sérstaklega frumlegt, eða hvað? En eins og yfirleitt er það samhengið og persónurnar og samspil þeirra sem gefur sögunni kraftinn og ekki síður sá heimur sem höfundar byggja upp, sem er virkilega vel heppnaður.

Samhengið er mörg hundruð ára framtíð þar sem menn hafa lagt undir sig sólkerfið og numið land á tunglinu, Mars og í smástirnabeltinu. Spennuþrunginn vopnaður friður ríkir milli Mars og Jarðar og auðlindir smástirnabeltisins eru gríðarmikilvægar fyrir íbúa plánetanna tveggja. Íbúar smástirnanna, þar sem vatn og loft er mikilvægara en gull og peningar, upplifa sig undirokaða og sólkerfið er í raun púðurtunna sem bíður eftir rétta neistanum til að fuðra upp. Söguhetjurnar, James Holden og félagar, lenda fyrir tilviljun í storminum miðjum, nánast með eldspýturnar í höndunum.

Það er margt við þessa seríu sem vekur athygli fyrir aðdáendur vísindaskáldsagna. Tæknin í heimi bókanna sveigist nær alltaf í átt að hinu raunverulega frekar en að upphugsuð sé pseudo-eðlisfræði til að leysa vandamál. Höfundar leyfa sér að sjálfsögðu ýmislegt í þeim efnum samt sem áður, en yfirleitt þá á máta sem framfleytir sögunni. Á sama hátt er persónusköpun og samskipti persóna nokkuð klassísk, jafnvel svo að það fer mögulega í taugarnar á einhverjum þegar líður á lestur bókanna hvað lesandinn fær takmarkað að kynnast bakgrunni þeirra fyrr en langt er liðið á söguna.

Það er hins vegar mjög skemmtilegt fyrir aðdáendur gömlu meistaranna hvað Franck og Abraham nota mikið af vísunum, stílbrögðum og jafnvel efnisatriðum frá þeim og gera að sínum á faglegan og snyrtilegan hátt. Sérstaklega eru eftirtektarverð hard science stílbrögð frá Clarke og frá Heinlein varðandi samfélagsuppbyggingu og valdaójafnvægi. Það má jafnvel ganga svo langt að segja að The Moon is a Harsh Mistress eftir Heinlein ætti að vera skyldulesefni á undan Leviathan Wakes. Við þetta bætist töluvert af vísunum í ýmsan poppkúltúr, t.d. í nafngiftum á stöðum og skipum og þess háttar, ekki síst í sjónvarpsþáttunum, sem margir gætu haft gaman af að reyna að spotta.

Það gefur því sögunum aukavídd að höfundar eru svo meðvitaðir um að þeir standa á herðum risa og að þeir nýta sér það óspart. Það er meðal þess sem gefur lesandanum þá tilfinningu að höfundarnir hafi haft jafn gaman af ferðalaginu og hann sjálfur.

Síðast en ekki síst þá draga þeir félagar fram fjölmörg klassísk hardboiled/noir element (og daðra jafnvel við horror) og  blanda saumlaust saman við plottið til að knýja áfram atburðarásina. Miller lögreglumaður er til dæmis nánast þeir félagar Philip Marlowe og Sam Spade endurfæddir í einni drykkfelldri geimlöggu í smástirnabeltinu – með hatti og öllu saman.

Það er óhætt að mæla með The Expanse fyrir geimóperuaðdáendur, hvort sem er bókunum eða sjónvarpsþáttunum. Sagan blandar saman fjölmörgum elementum – gráðugum stórfyrirtækjum, spilltum pólitíkusum, stríðsæsingamönnum, andspyrnubaráttumönnum, siðlausum skúrkum og breyskum hetjum – í fjörugan geimeltingaleik um sólkerfið með leyndardómsfullu tvisti. Aðalhættan er að lesandinn geti ekki lagt frá sér bækurnar fyrr en þær eru allar búnar. Og það er þá að minnsta kosti huggun harmi gegn að James S.A. Corey lætur ekki bíða jafnlengi eftir sér og George R.R. Martin…

Ein athugasemd við “The Expanse – Space noir upp á sitt besta?

Lokað er á athugasemdir.