Endalok tvíhyggjunnar – þrjár bækur með nýrri hugsun

Þrátt fyrir mikla framþróun á síðari hluta 20. aldar og því sem af er þeirri 21. standa  hin svokölluðu „vestrænu“ samfélög enn a grunni hugmynda sem mótaðar voru fyrir mörg hundruð og jafnvel þúsundum ára.

Grunnhugmyndir manna um tvö kyn, hlutverk þeirra, samskipti og samlíf eru enn með sterkustu þátta í félagsmótun og eru enn það sem kallast „norm“ í samfélaginu. Tvíhyggjan, sú grundvallarsýn að til séu tvö ólík kyn sem hvort um sig hafi ólík hlutverk og þarfir og að samskipti þeirra og smafélag mótist í takt við það, er eldgömul. Hana er að finna í Biblíunni, heimspekitextum fornaldar og nánast hvar sem drepið er niður penna fram eftir öldum.

Þetta er auðvitað mikil einföldun.

Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að barátta fyrir jafnrétti kynjanna er að grunni til barátta gegn tvíhyggjunni, eða að minnsta kosti barátta gegn því að slíkar hugmyndir ráði því hvernig samfélagið mótast og hvernig einstaklingarnir innan þess þurfa að haga sér, falla í fyrirfram gefið mót.

Síðustu 40-50 ár hefur samfélagsþróunin verið í átt til þess að viðurkenna fjölbreytileika samfélagsins, að stroka smám saman út línurnar milli kynhlutverkanna og viðurkenna fleiri kynjamyndir en tvær. Þessu hefur fylgt meiri viðurkenning á „óhefbundnum“ samskiptum kynjanna í skilningi tvíhyggjunnar, mismunandi fjölskylduformum og ólíkum samböndum.

Samfélögin eru auðvitað mismunandi langt á veg komin í þessum efnum en barátta fyrir jöfnum réttindum kynjanna og allra þegna samfélagsins óháð kynhneigð, kynímynd eða öðru sem storkar hefðum tvíhyggjunnar hefur þó þróast lengra og hraðar á síðustu 50 árum en á næstu 500 árum þar á undan.

En hvers vegna þessi inngangur? Er ekki hugmyndin að ræða bókmenntir hérna?

Vísindaskáldsögur: Að leyfa sér nýja hugsun í öðrum raunveruleika

Jú mikið rétt. Fjöldi bóka hefur gefið baráttunni gegn hugmyndum tvíhyggjunnar kraft þessi síðustu 50 ár, og auvitað lengur. En fáar bókmenntagreinar gefa líklega jafn mikla möguleika á að draga fram nýjar hugmyndir og storka viðvarandi ástandi eins og vísindaskáldsögur og fantasíusögur.

Þær eru ekki bundnar neinum lögmálum nema þeim sem höfundur setur sér. Hvort sem höfundur setur nýtt tvist á raunveruleika sem við þekkjum, eða byggir nýjan heim þar sem lögmálum er snúið á hvolf, eru möguleikarnir óþrjótandi. Þær geta kynnt og jafnvel boðað nýja hugsun, ný lögmál.

Það eru auðvitað mörg dæmi þess að skáldsögur í þessum geira hafi gert einmitt það og haft mikil áhrif á samfélagið. Eitt af þekktari dæmum er Stranger in a Strange Land eftir Robert Heinlein, sem kom út 1961 og hafði gífurleg áhrif á bandaríska hippamenningu á 7. áratugnum, m.a. með gagnrýni sinni á ýmsar viðteknar hefðir samfélags og trúarbragða – og áherslu á frjálsar ástir.  Bókin varð fyrir mörgum að eins konar biblíu hippamenningarinnar og þykir eitt þeirra bókmenntaverka sem hvað mest áhrif hafa haft á bandaríska menningu á 20. öld.

Hér verða nefndar þrjár bækur sem allar leggja lóð á vogarskálar nýrrar hugsunar hjá lesandanum þegar kemur að tvíhyggju, samskiptum kynja, kynhegðun og samfélagsgerð og -þróun. Og sú fyrsta er þar í nokkrum sérflokki.

The Left Hand of Darkness – Ursula K. Le Guin

04The Left Hand of Darkness eftir Ursulu K. Le Guin er ein áhrifamesta vísindaskáldsaga 20. aldar. Bókin var gefin út árið 1969 og þykir ásamt nokkrum öðrum marka upphaf femínískra vísindaskáldsagna. Sagan er hluti af Hainish heimi Le Guin sem telur sjö skáldsögur og fjölda smásagna, þar sem gjarnan er fjallað um samfélagsmálefni og mismunandi stjórnarfar á máta sem varpa ljósi á eða storka samfélagsgerð samtímans.

Bókin segir frá Genly Ai, karlmanni frá Jörðu, sem sendur er í diplómatískum tilgangi til plánetunnar Gethen, þar sem kyn íbúanna er órætt, þeir eru bæði karl- og kvenkyns, og sagan mótast að stórum hluta af erfiðleikum Ai við að skilja og aðlagast samfélagi sem ekki byggir á þeim kynhlutverkum sem hann er vanur.

Samband hans við hina meginpersónu sögunnar, hinn innfædda Estraven, er meginsaga bókarinnar og lesandinn fylgist með Ai læra að meta og skilja betur bæði eigið sjálf og hinn ókynbundna ferðafélaga sinn.

Le Guin lét síðar hafa eftir sér að hún hefði tekið hefðbundin kynhlutverk í burtu til að skoða hvað væri þá eftir. Og þó þemu bókarinnar snúist að stórum hluta um trúarbrögð, vináttu og traust eru kynhlutverk, eða skortur á þeim og áhrif þess á samfélagið grunnundirtónn í allri bókinni.

The Left Hand of Darkness hlaut bæði Nebula og Hugo verðlaunin árið 1970 og vakti strax mikla athygli og umræðu, sérstaklega vegna þeirra hugmynda sem þetta þema vakti og tengdust beint inn í kvenréttindabaráttu þess tíma. Hún hlaut reyndar líka gagnrýni fyrir framsetningu sína á sífellt nánara sambandi þeirra Ai og Estraven sem þrátt fyrir augljósa rómantíska tóna verður aldrei líkamlegt. Estraven er í bókinni settur fram sem karlmannlegur og augljóst er af sögunni að gagnkynhneigð sambönd eru þrátt fyrir allt normið á Gethen.

Bókin setti Le Guin upp sem brautryðjanda út úr tvíhyggjunni í heimi vísindaskáldsagna og á sviði bókmennta almennt. Hún færir lesandann inn í samfélag sem ekki er stýrt af kynhlutverkum eða kynhegðun og skoðar það í gegn um augu karlmanns sem alinn er upp í kynjaskiptu samfélagi jarðar. Ferðalag Genly Ai og það hvernig hann lærir að aðlagast nýjum hugmyndum sem því fylgja verður því um leið ferðalag lesandans sem kveikir nýjar hugmyndir og möguleika. Leitun er að bókum í þessum geira sem hafa haft jafn mikil áhrif, bæði á samfélagshugmyndir og bókmenntir sem á eftir komu.

 The Long Way to a Small Angry Planet – Becky Chambers

02The Long Way to a Small Angry Planet eftir Becky Chambers verður líklega ekki metin jafn áhrifarík þegar fram líða stundir. Bókin er léttari aflestrar og skrifuð í skemmtilegum stíl og svipar að mörgu leyti meira til reifarabókmennta en klassískra meistaraverka. En þrátt fyrir yfirborðskennd á yfirborðinu leynast í þessari bók ótrúlega mörg djúp viðfangsefni sem nútíminn þarf að fást við – áleitnar spurningar um klónun, líknardauða, gervigreind, mismunandi fjölskylduform, skæruhernað og síðast en ekki síst kynhegðun og sambönd.

Söguþráðurinn fylgir áhöfn geimskips sem grefur ormagöng milli svæða í geimnum og skoppar milli sjónarhorna mismunandi áhafnarmeðlima – sem eru eins ólíkir og þeir eru margir. Þó að aðalsöguhetjan sé ritarinn Rosemary sem kemur ný um borð í byrjun og kynnist áhöfninni eftir því sem líður á bókina gefur þessi sögumáti lesandanum innsýn í allar persónurnar um borð. Persóna Rosemary verður því frekar það tæki sem höfundur notar til að draga fram eiginleika og persónur hinna.

Hvað tvíhyggjuna varðar lifir hún ágætu lífi að hluta til í bókinni en er sparkað út um loftlásinn að öðru leyti. Kynin í bókinni  eru að meginstofni tvö, að minnsta kosti þegar kemur að mannfólkinu, en alls konar aðrar tegundir „fólks“ rugla tvíhyggjuradarinn.

Stór hluti bókarinnar fer í að skoða nánar möguleikana sem felast í öðrum tegundum og samfélögum þeirra og lesandinn lærir ásamt Rosemary að samfélagsgerðir og samfélagshegðun geta verið ansi margskonar. Allt gefur það lesandanum sterk komment á okkar eigið samfélag í nútímanum.

Í bókinni brýtur Chambers á einfaldan hátt veggi hefðbundinna kynjasambanda, þar ert.d. sérstök persónufornöfn notað yfir þá sem hvorki eru karl eða kvenkyns (út frá normi Jarðarbúa) og fjallað um alls kyns kynsambönd og samlíf, milli alls konar kynja og jafnvel tegunda.

Það er ekki síst sú umfjöllun sem skilur eftir víðari hugsun hjá lesandanum. Chambers hefur lag á að koma frá sér miklu magni upplýsinga og hugmynda í textanum án þess að trufla framvindu sögunnar, sem fljúga svo um í höfðinu á lesandanum að bókinni lokinni. Vekja nýjar hugmyndir, setja rifu á gluggann að opnari hugsun.

Ancillary Justice – Ann Leckie

03Sú þriðja, Ancillary Justice, er fyrsta bók af þremur (amk.) í Imperial Radch flokknum eftir Ann Leckie. Bókin er sú eina sem hefur hlotið þrennuna, Hugo, Nebula og Arthur C. Clarke verðlaunin, en auk þess hefur hún hlotið BSFA og Locus verðlaunin og verið tilnefnd til nokkurra annara.

Söguhetja bókarinnar er óvenjuleg, gervigreind, sem áður stýrði stóru geimskipi og þúsundum hermanna en er nú takmörkuð við einn líkama, sem hún nefnir Breq, og leitar nú hefnda gegn fyrri yfirboðurum.

Hvað frávik frá tvíhyggjunni varðar býður þessi framsetning upp á fjöldan allan af möguleikum og nýrri hugsun. Breq er ekki mennsk eða líffræðileg vera og kyn er henni því ekki eðlislægt. Hún kemur einnig úr samfélagsumhverfi Radchaai heimsveldisins þar sem kyn er ekki ráðandi faktor í samskiptum og jafnvel tungumálið gerir ekki greinarmun á kynjum.

Hún á erfitt með að greina á milli kynja og kyn er henni í raun til trafala í samskiptum við mennskt fólk, þar sem tungumál þeirra og samfélagsnorm gera það að verkum að röng kyngreining getur verið móðgandi og/eða komið upp um að eitthvað sé óvenjulegt við hana sjálfa. Kyn er því fyrir söguhetjunni eitthvað sem hún horfir á utan frá og er fremur vandi sem ráða þarf fram úr, samfélagsatriði sem falla þarf inn í á mismunandi hátt, en eðlislægur hluti persónunnar.

Lesandinn fær þetta allt í æð frá fyrstu síðu því að Breq talar um alla í kvenkyni. Alveg sama hvort viðkomandi er karlkyns eða kvenkyns. Það kemur reyndar stundum fram hvort er um að ræða en lesandinn þarf þó oft á tíðum að reyna að ráða í aðrar vísbendingar til að komast að því hvors kyns aðrar persónur sögunnar eru.

Þessi framsetning verður hins vegar til þess að smám saman hættir það að skipta máli. Sögunni vindur fram og talað er um alla sem „hún“ og „þær“, „hennar“ og „henni“ og það á allt eins við persónur sem lesandinn hefur fengið staðfest á einhvern máta að eru karlkyns. Sú staðreynd hættir einfaldlega að hafa gildi fyrir söguna.

Leckie tekst því á vissan hátt að nálgast frá öðru sjónarhorni það sem Le Guin reyndi í The Left Hand of Darkness – að fjarlæga hefðbundin kynhlutverk og sjá hvað stendur eftir. En hjá Leckie eru samt töluverðar vangaveltur um þessa hluti, kyn skiptir máli í sumum tungumálum og sumum ekki, í sumum samfélögum og öðrum ekki. Breq þarf að finna réttu leiðina í hvert sinn, við hverjar aðstæður fyrir sig, meta við hvern hún er að tala, hvernig skuli ávarpa hana og svo framvegis.

Þessar vangaveltur eru skrifaðar inn sem órjúfanlegur hluti sögunnar og eru í raun mikilvægur hluti af persónusköpun og heimsbyggingu bókarinnar á mjög áhugaverðan hátt.

Ný hugsun – nýir möguleikar

Það er óhætt að mæla með öllum þessum þremur bókum við aðdáendur vísindaskáldsagna, hvort sem áhugi lesandans stendur til vangaveltna um afnám tvíhyggjunnar eða útstrokun hefðbundinna kynhlutverka eða ekki. Þær eru auðvitað allar margslungnari en hér hefur verið rætt en þessi atriði eru þó eitt af því sem gerir þessar bækur áhugaverðar.

Það er líka sérstaklega áhugavert að í öllum þessum bókum skiptir tungumál töluverðu máli í þessu sambandi. Tungumál er skilgreinandi og ræður gríðarmiklu í samskiptum fólks. Tungumál og samfélagsgerð eru náskyldar byggingareiningar veraldanna sem búnar eru til í þessum þremur bókum og trúarbrögð blandast gjarnan inn í á einhvern hátt. Það er því ekki síður áhugavert að velta fyrir sér hvaða áhrif tungumálið hefur á það hvernig við upplifum og ræðum um kynhlutverk og samskipti kynjanna í samfélagi nútímans.

Þó þessar þrjár bækur séu ákaflega ólíkar innbyrðis eiga þær allar sameiginlegt að vekja umhugsun og draga lesandann inn í veraldir sem kveikja nýjar hugmyndir um hlutverk kynjanna, samskipti þeirra og samfélagsgerð, og vekja um leið gagnrýna hugsun varðandi okkar eigið samfélag – sem er eitt mikilvægasta hlutverk bókmennta.